Afrakstur menntabúða um Loftslagsbreytingar

 

Útdráttur af dagskrá og umfjöllun

20. mars 2014 – Melaskóli

 

  • María Sophusdóttir – Melaskóla, unglinga- og miðstigskennari

María tók vel á móti okkur í náttúrufræðistofu og sagði frá því hvernig náttúrufræðikennslu væri háttað í skólanum. Hvað loftslagsbreytingar varðar benti hún á að vinna með fréttir til að undirbúa og hvetja nemendur til þess að taka umræðuna heima. Henni fannst hrunið hafa haft jákvæð áhrif á umræðuna og hjálpað til að breyta viðhorfum til umhverfismála. Í Melaskóla er unnið að Grænum skrefum Reykjavíkurborgar.

  • Nanna Traustadóttir – Garðaskóla, unglingastigskennari

Nanna taldi nauðsynlegt að taka umræðuna um umhverfismál í skólanum. Hún er ánægð ef unglingarnir fara heim og ræða við foreldrana sína um þau verkefni sem er verið að vinna með. Nanna sagði okkur frá verkefni í 10. bekk. Nemendur gerðu könnun á flokkun og notkun á endurvinnslutunnum í skólanum og fl. Niðurstaða: 8 nemendur af 70 vissu af flöskutunnu í matsal og 7 notuðu hana. Allir sögðust myndu nota flokkunartunnur ef þær væru fyrir hendi. Nanna benti á að allir árgangar geti gert kannanir i sínum skóla.

  • Þórunn Arnardóttir – Kópavogsskóla, nú nemandi í námskeiðinu: Náttúruvísindi á 21. öld við MVS HÍ

Þórunn hefur undafarið „átt samtal“ við nýja aðalnámskrá. Hún telur hana vera endurmenntandi plagg og áskorun til kennara. Hún hefur verið að móta verkefni um loftslagsbreytingar á miðstigi. Verkefnið er í 2 þrepum, loftlagsbreytingar og hugtök þeim tengdum og svo raunverulegt verkefni: Hjólreiðar. Þórunn leggur mikla áherslu á að vera uppbyggjandi frekar en að vekja ótta og vonleysi í kennslu sinni um loftsslagsbreytingar. Verkefni hennar mun birtast í heild sinni á vef Náttúrutorgs þegar það verður tilbúið.

  • Hafdís Ragnarsdóttir – Foldaskóla, nú verkefnastjóri við MVS HÍ

Hafdís sagði frá tveimur verkefnu sem unnin voru í tengslum við Norræna loftslagsdaginn. Allir nemendur skólans voru þátttakendur í verkefninu.

Fyrra verkefnið: Nemendur dreifðu bæklingi í hvert hús í hverfinu. Í bæklingnum voru upplýsingar um umhverfisstarfið í skólanum, mikilvægi trjáa í tengslum við loftslagsbreytingar og upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga. Þeir sem tóku við bæklingnum voru beðnir að klippa út laufblaðið sem var á fremstu síðu og koma með það í skólann og líma á tré sem nemendur höfðu útbúið og nefndu Virðingu.

Seinna verkefnið: Nemendur unnu með vistsporið

Nemendur lærðu hvað orðið vistspor merkti og hversu stórt íslenska vistsporið er. Nemendur voru 4-5 í hópi og völdu úr ,,fótsporum” sem á voru ritaðar mismunandi setningar um umhverfismál. Hópurinn þurfti að ræða setninguna og rita síðan nöfn sín á sporið. Sporin voru síðan límd upp og þau tóku öll stefnuna frá bekkjarstofu á „græna vegginn“ þar sem stóð: Ein jörð fyrir alla.  Nánari útskýringar á verkefninu Vistspor.

Hafdís benti á Þolmarkadag jarðar en u.þ.b. á þeim degi hefur maðurinn eytt þeim auðlindum jarðar sem jörðin nær að endurnýja (sjálfbær nýting). Þolmarkadagur jarðar 2013 var 20. ágúst og eftir það er neyslan orðin ósjálfbær.

Hér er tengill á vef Náttúruskólans.

Á vef Námsgagnastofnunar má finna vefinn Heimurinn en þar eru verkefni tengd vistspori og loftslagsmálum.

  • Birgir U. Ásgeirsson – MVS HÍ

Birgir hóf umræðu um hvaða aðrir möguleikar kæmu til greina til að sporna gegn loftslagsbreytingum, aðrir en minni útblástur. Þar er margt sem kemur til greina eins og gervitré, niðurdæling á koldíoxíði, setja spegla út í geim, mála þök hvít, plöntun trjáa, fjöldun mannkyns, fækkun mannkyns, o.fl. Það gæti verið gaman að fá hugmyndir nemenda að nýjum leiðum til að fanga koldíoxíð eða til að kæla jörðina.

Hér er tengill á CarbFix leik Orkuveitunnar fyrir nemendur um niðurdælingu á gróðurhúsalofttegundum.