Afrakstur menntabúða um sjálfbærni

 

Útdráttur úr dagskrá og umfjöllun

7. maí 2014 – Ingunnarskóla

 

  • Sjálfbærniverkefni – Brynjólfur Gíslason, Ingunnarskóli

Brynjólfur Gíslason sagði frá áhugaverðu verkefni sem var unnið í 10. bekk.

Markmið:  Að samþætta íslensku og náttúrufræði.

Tími: Um þrjár vikur (íslensku og náttúrfræðitímar)

Leið: Sýndarréttarhöld þar sem nútíð og framtíð  takast  á um hegðun mannsins  á jörðinni. Framtíðin eða komandi kynslóðir ásakar nútíðina, með rökum,  um slæma umhverfishegðun. Nútíðin reynir  að verja hegðun sína með rökum.

Vinnulag: Nemendur vinna í hópum og hveri og einn innan hans hefur ákveðið hlutverk (lögfræðingur, vitni, sækjandi). Kennarar höfðu áhrif á samsetningu hópanna.  Hóparnir ráða hvaða viðfangsefni þeir taka fyrir: T.d. kjarnorka, skógargreyðing, umbúðir, loftslagsbreytingar, dýr í útrýmingarhættu og fl.

Verkefnið tókst mjög vel að mati kennara. Nemendur voru virkir og lögðu sig fram og  tóku verkefninu  alvarlega. Þeir öfluðu sér upplýsinga og hittust jafnvel fyrir utan skólann til að ljúka undirbúningi.

Námsmat: Jafningjamat, sem að mati kennara kom vel út.

Þegar grannt er skoðað spannar þetta verkefni alla grunnþætti menntunar: sjálfbærni, læsi, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Stefnt er að því að hafa þetta verkefni  sem fastan lið í 10. bekk  og leyfa því að  þróast og taka breytingum með tímanum.

 

  • Umhverfismennt  Bergljót Ingvadóttir, Varmárskóli

Bergljót sýndi glærur sem hún notaði í kynningu m.a. á hugtökunum: umhverfismennt, sjálfbær þróun, vistspor, útikennsla og vettvangsferðir. Varmárskóli hefur gott aðgengi að fjölbreyttri náttúru sem hægt  er að rannsaka, njóta og nýta.  Nemendur taka þátt í rækta grænmeti sem þeir fá að borða í skólanum. Löng hefð er fyrir útieldun. Kennarar eru duglegir að nýta strætisvagna þegar farið er í vettvangsferðir sem eru fyrir utan nærumhverfi  þeirra.

 

  • Menntun til sjálfbærni – Þóra Skúladóttir, Háteigsskóli

Glærurnar má nálgast hér. Þóra sýndi glærur sem hún notaði m.a. til að fræða samstarfsmenn sína um menntun til sjálfbærrar þróunar og hugmyndir að verkefnum. Þar eru mörg góð dæmi um hvernig unnt sé að koma sjálfbæni í menntun.

  • Hringrás vatns – Birgir Mikaelsson, Breiðagerðisskóli

Birgir sagði m.a. frá verkefni sem hann gerði með 6. bekk  um hringrás vatns og leiddi til umræðu um ljóstillífun. Hver hópur fær tveggja lítra plastflösku. Flöskuna þarf að klippa í sundur. Neðri hlutinn er notaður til að koma fyrir mold og fræi sem á að rækta. Moldin er vökvuð vel og síðan er plastflaskan límd saman. Tappann má ekki taka af því þetta er lokað vistkerfi (sjá mynd). Fljótlega sjá nemendur gufu innan á flöskunni. Hvaðan kemur gufan? Hvað verður um hana og fl. tengt fasaskiptum, þéttingu, hita, birtu og hvað planta þarf til að lifa, ljóstillífun og fleira. Þetta verkefni vekur áhuga og virkni í umræðum.